Íslenskættaður piltur fetar í fótspor föður síns

Luca Dahl Tomasson skrifar undir hjá Feyenoord.
Luca Dahl Tomasson skrifar undir hjá Feyenoord. Ljósmynd/Feyenoord

Luca Dahl Tomasson, danskur piltur af íslenskum ættum, er búinn að semja við hollenska knattspyrnufélagið Feyenoord og fetar þar með í fótspor föður síns.

Eins og nafnið bendir til er hinn 16 ára gamli Luca sonur Jons Dahls Tomassons, fyrrverandi landsliðsfyrirliða Dana og núverandi þjálfara sænska karlalandsliðsins.

Tengsl þeirra við Ísland eru þau að Halldór Tómasson, afi Jons Dahls og langafi Luca, fluttist á sínum tíma til Danmerkur og settist þar að.

Luca var síðast í röðum enska félagsins Blackburn Rovers en þar var faðir hans knattspyrnustjóri.

Jon Dahl lék sjálfur með Feyenoord, fyrst á árunum 1998 til 2002 þegar hann skoraði 55 mörk í 122 leikjum í úrvalsdeildinni, og síðan lauk hann ferlinum þar á árunum 2008 til 2011 þegar hann gerði 20 mörk í 37 leikjum.

„Ég kom reglulega á De Kuip þegar ég var lítill strákur til að sjá pabba spila. Það er því sérstaklega skemmtilegt að geta nú fetað í hans fótspor," segir Luca Dahl Tomasson á heimasíðu Feyenoord.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert