Knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson er á förum frá þýska liðinu Holstein Kiel en félagið staðfesti það á samfélagsmiðlum sínum í dag. Samningur Hólmberts rennur út eftir helgi.
Hólmbert gekk í raðir Holstein Kiel árið 2021 og lék 26 leiki fyrir félagið en var um skeið í láni hjá Lilleström í Noregi.
Meiðsli settu strik í reikninginn á síðasta tímabili en Hólmbert lék einungis fjórtán leiki og skoraði eitt mark en Holstein Kiel leikur í þýsku 1. deildinni á næsta tímabili eftir að hafa endað í öðru sæti B-deildarinnar í vetur.
Framherjinn stæðilegi hefur komið víða við á ferlinum og athyglisvert verður að fylgjast með næsta skrefi kappans.