Marseille staðfestir komu De Zerbi

Roberto De Zerbi.
Roberto De Zerbi. AFP/Glyn KIRK

Ítalski knattspyrnustjórinn Roberto De Zerbi er á leið til Marseille í Frakklandi. Félagið staðfestir í yfirlýsingu á heimasíðu sinni að samkomulag milli þjálfarans og félagsins sé í höfn.

Marseille lenti í áttunda sæti 1. deildarinnar og tekur ekki þátt í Evrópukeppnum á næsta tímabili eftir furðulegt tímabil. Spánverjinn Marcelino hóf tímabilið sem knattspyrnustjóri liðsins en sagði upp störfum eftir einungis sjö leiki. Ítalinn Gennaro Gattuso tók við starfi hans en var rekinn fimm mánuðum síðar. Jean-Louis Gasset kláraði tímabilið en yfirgaf félagið að því loknu.

De Zerbi hætti hjá Brighton í vor en hann hafði áður þjálfað Shaktar Donetsk og Sassuolo. Hann var orðaður við Juventus og AC Milan í heimalandinu ásamt Chelsea, Bayern München og Barcelona en hann hefur störf formlega í Suður-Frakklandi í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert