„Fólk heldur að hann sé þurs sem keyrir trukk“

„Ég ætlaði mér alltaf að verða framherji í efstu deild en sem betur fer hafði Ólafur Þórðarson vit fyrir mér,“ sagði knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Ásgeir Börkur Ásgeirsson í Dagmálum.

Ásgeir Börkur, sem er 37 ára gamall, lagði skóna á hilluna eftir síðasta keppnistímabil en hann er hvað þekktastur fyrir tíma sinn með uppeldisfélagi sínu Fylki og var á meðal litríkustu karakteranna í íslenska boltanum lengi vel.

Tekinn til hliðar á æfingu

Ólafur Þórðarson var þjálfari Fylkis þegar Ásgeir Börkur stimplaði sig rækilega inn í Fylkisliðið árið 2009.

„Eftir tveggja vikna æfingar tók Óli mig til hliðar á æfingu til þess að ræða málin,“ sagði Ásgeir Börkur.

„Ég veit að fólk heldur að hann sé þurs sem keyrir trukk á Akranesi en hann er ótrúlega góður í mannlegum samskiptum. Hann er sá þjálfari, á mínum ferli, sem var bestur í mannlegum samskiptum.

Ég veit að þetta hljómar illa sagði hann við mig, en þú verður aldrei framherji í efstu deild. Svo sagðist hann ætla að gera mig að miðjumanni og ég hafði í raun enga skoðun á því en ef þetta þýddi það að ég væri að fara spila fyrir Fylki þá var ég klár í það,“ sagði Ásgeir Börkur meðal annars.

Viðtalið við Ásgeir Börk í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Ólafur Þórðarson.
Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Ólafur Þórðarson. mbl.is/María
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert