„Kominn aftur til þess að spila“

Elías Rafn Ólafsson hitar upp fyrir landsleik.
Elías Rafn Ólafsson hitar upp fyrir landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elías Rafn Ólafsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, kveðst staðráðinn í því að vinna sér inn byrjunarliðssæti hjá dönsku meisturunum í Midtjylland.

Elías Rafn lék á láni hjá Mafra í portúgölsku B-deildinni á síðasta tímabili. Mafra er systurfélag Midtjylland og var hann þar í stóru hlutverki.

„Ég er kominn aftur til þess að spila og við sjáum hvað gerist. Það er markmið mitt að koma aftur hingað til þess að verða aðalmarkvörður liðsins. Ég er orðinn þroskaðri og reyndari.

Ég spilaði alla leiki í Portúgal og þess vegna fór ég þangað. Mig langaði að fá að spila reglulega og þroskast. Nú er ég kominn aftur þroskaðri og rólegri í mínum leik,“ sagði Elías Rafn í samtali við danska miðilinn Bold.

Hugsar ekki um neitt annað

Hann á að baki sex A-landsleiki og alls 33 leiki fyrir Midtjylland í öllum keppnum.

„Planið er að ég komi inn og spili einhvern tímann. Persónulega vonast ég til þess að það gerist núna. Ég verð að spila hérna núna. Ég verð að gera það og það er það sem ég vil helst af öllu gera.

Ef það gerist ekki verðum við að sjá hvað gerist en ég er ekki að hugsa um neitt annað á þessari stundu,“ bætti Elías Rafn við, inntur eftir því hvort hann myndi hafa þolinmæði til þess að bíða eftir því að vinna sér inn byrjunarliðssæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert