„Vorum eins og Bruce Willis í The Sixth Sense“

Gustavo Alfaro, þjálfari Kosta Ríka, er litríkur karakter.
Gustavo Alfaro, þjálfari Kosta Ríka, er litríkur karakter. AFP

Gustavo Alfaro, þjálfari Kosta Ríka, vakti athygli fyrir óvenjulega samlíkingu eftir að liðið gerði markalaust jafntefli við Brasilíu í D-riðli Ameríkubikarsins, Copa América, á þriðjudagskvöld.

Fyrir fram var búist við þægilegum sigri Brasilíu en Alfaro sagði á fréttamannafundi eftir leik að sínir menn hafi ávallt haft trú á því að geta náð í úrslit.

„Mér fannst varnarmennirnir og miðjan gera vel í að sjá til þess að Brasilía fengi jafn fá færi og raunin varð. Við vorum eins og Bruce Willis í The Sixth Sense.

Við vorum þeir einu sem vissum það fyrir kvikmyndina að við værum ekki dauðir. Fyrir myndina töldu allir fyrir fram að við værum dauðir,“ sagði hann í léttum dúr.

Vísaði Alfaro þar til þekktrar kvikmyndar frá árinu 1999 með Bruce Willis í aðalhlutverki, þar sem aðalkarakterinn sem Willis leikur uppgötvar seint í myndinni að hann hafi verið látinn allan tímann.

Leikarinn Bruce Willis.
Leikarinn Bruce Willis. AFP/Mehdi Fedouach
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert