Pogba segist ekki vera hættur

Paul Pogba er hvergi hættur.
Paul Pogba er hvergi hættur. AFP/Isabella Bonotto

Franski miðjumaðurinn Paul Pogba afplánar nú fjögurra ára bann fyrir notkun ólöglegra lyfja en óeðlilegt magn testósteróns fannst í þvagsýni leikmannsins á lyfjaprófi í ágúst síðastliðnum. Pogba segist ekki vera hættur í fótbolta.

Pogba var viðstaddur leik Frakklands og Belgíu á EM í gær en leikmaðurinn var boðsgestur franska knattspyrnusambandsins. Stuðningsmenn Frakka fögnuðu miðjumanninum innilega en Pogba var lykilmaður í heimsmeistaraliði þjóðarinnar árið 2018.

„Það var yndislegt að finna fyrir ást stuðningsmanna, ég hef verið lengi frá og það snerti mig djúpt að heyra fólk syngja nafnið mitt,“ sagði miðjumaðurinn við Sky Sport Italia í leikslok.

Pogba er 31 árs gamall leikmaður Juventus en ólíklegt er að hann geti spilað á hæsta stigi eftir fjögurra ára banninu lýkur árið 2027 en Pogba segist vera hvergi hættur og muni berjast gegn banninu. 

„Ég hef aldrei sagst vera hættur, ég er enn þá fótboltamaður. Ég mun berjast gegn þessu óréttlæti. Pogba er ekki hættur.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert