Fer í markið hjá Inter Mílanó

Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir á æfingu með íslenska landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Cecilía Rán Rúnarsdóttir, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, mun verja mark Inter Mílanó í ítölsku A-deildinni á næsta keppnistímabili.

Samkvæmt heimildum mbl.is er lánssamningur á milli Bayern München og Inter í höfn en Cecilía, sem er tvítug, hefur verið í röðum Bayern frá árinu 2021.

Hún missti alveg af síðasta keppnistímabili vegna slæmra meiðsla en var markvörður varaliðs Bayern í þýsku B-deildinni tímabilið 2022-23. Hún á að baki einn leik með Bayern í efstu deild Þýskalands en er samningsbundin félaginu til ársins 2026.

Cecilía hefur leikið 11 landsleiki fyrir Íslands hönd og 24 leiki með yngri landsliðunum en hún er í landsliðshópnum sem nú býr sig undir leikina við Þýskaland og Pólland í undankeppni EM 12. og 16. júlí.

Inter hafnaði í fimmta sæti A-deildarinnar á síðasta tímabili. Cecilía verður annar íslenski leikmaðurinn sem spilar fyrir félagið en Anna Björk Kristjánsdóttir, núverandi leikmaður Vals, lék með Inter frá ársbyrjun 2022 til vorsins 2023.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert