Fyrstur Íslendinga í Armeníu

Guðmundur Þórarinsson í leik með íslenska landsliðinu.
Guðmundur Þórarinsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Guðmundur Þórarinsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er fyrstur Íslendinga búinn að semja við félag í Armeníu.

Guðmundur er genginn til liðs við Noah sem hafnaði í öðru sæti úrvalsdeildarinnar í Armeníu á síðasta tímabili, tveimur stigum á eftir meistaraliðinu Pyunik Yerevan.

Ríkharð Óskar Guðnason skýrði frá þessu á Twitter í dag og segir að samningurinn sé til eins árs með möguleika á árs framlengingu.

Liðið leikur í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í sumar og mætir þar Shkëndija frá Norður-Makedóníu í fyrri viðureign liðanna á fimmtudaginn.

Guðmundur, sem er 32 ára Selfyssingur og leikur mest sem vinstri bakvörður, hefur undanfarin tvö ár leikið með OFI frá Krít í grísku úrvalsdeildinni. Armenía er fimmta landið hans í atvinnumennsku en Guðmundur hefur leikið með Sarpsborg og Rosenborg í Noregi, Nordsjælland og AaB í Danmörku, Norrköping í Svíþjóð og New York City í Bandaríkjunum.

Hann á að baki 391 deildaleik á ferlinum, þar af 95 á Íslandi með Selfossi og ÍBV en hann hefur leikið erlendis frá árinu 2013.

Guðmundur hefur að undanförnu verið í íslenska landsliðshópnum og spilað 15 A-landsleiki alls, tvo á þessu ári, en hann var í byrjunarliðinu í leikjunum við Ísrael og Úkraínu í umspilinu um sæti á EM í mars.

Uppfært:
Noah staðfesti komu Guðmundar til félagsins síðdegis í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert