Tafir vegna troðnings á úrslitaleik Ameríkubikarsins

Fjöldi fólks í troðningi við innganginn.
Fjöldi fólks í troðningi við innganginn. AFP/Maddie Meyer

Ekki hefur enn verið hægt að hefja úrslitaleik Ameríkubikars karla í knattspyrnu milli Argentínu og Kólumbíu en flauta átti til leiks í Miami á Flórída á miðnætti að íslenskum tíma.

Samkvæmt fjölmiðlum eru enn stórir hópar fólks utan leikvangsins sem ekki hafa komist inn og á myndum frá vettvangi má sjá grátandi börn og fólk sem er illa haldið vegna troðnings.

Leikið er á Hard Rock Stadium sem rúmar 65 þúsund manns og er einn af þeim völlum sem spilað verður á þegar heimsmeistaramótið 2026 fer fram í þremur löndum Norður- og Mið-Ameríku.

Í yfirlýsingu frá talsmanni leikvangsins segir að hliðum hafi verið lokað eftir að þúsundir fólks án miða á leikinn hafi reynt að komast inn á völlinn. Fyrir vikið hafi leiknum verið seinkað um óákveðinn tíma til að tryggja að fólk með miða á leikinn komist inn á öruggan hátt.

Mannfjöldi fyrir utan leikvanginn í Miami í kvöld.
Mannfjöldi fyrir utan leikvanginn í Miami í kvöld. AFP/Megan Briggs
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert