Þriðji stóri titill Argentínu í röð

Lionel Messi lyftir bikarnum.
Lionel Messi lyftir bikarnum. AFP/Chandan Khanna

Argentína er Ameríkubikarmeistari í 16. sinn eftir sigur á Kólumbíu, 1:0, í kjölfar framlengingar í úrslitaleiknum í Miami í nótt. 

Sigurmark Argentínu skoraði varamaðurinn Lautaro Martínez á 112. mínútu. 

Argentínumenn vörðu þar með Ameríkubikar sinn frá árinu 2021. Þar á milli vann liðið einnig heimsmeistaramótið árið 2022.

Leikurinn átti að fara af stað á miðnætti en honum var frestað um 80 mínútur vegna mikils rugls fyrir utan völlinn. Stuðningsmenn án miða voru út um allt og mikill troðningur á staðnum.

Kólumbía var betri í fyrri hálfleik og skapaði sér góð færi en fór illa með þau.

Stjarnan og fyrirliðinn Lionel Messi þurfti að fara af velli um miðjan síðari hálfleikinn.

Lautaro Martínez fagnar sigurmarkinu.
Lautaro Martínez fagnar sigurmarkinu. AFP/Chandan Khanna

Liðunum tókst ekki að skora í venjulegum leiktíma og þurfti því framlengingu til að útkljá málin. 

Sigurmarkið var glæsilegt en þá vann Leandro Paredes boltann á miðjunni, gaf snilldarsendingu á Giovani Lo Celso sem framlengdi honum á Lautaro Martínez sem smellti boltanum í netið, 1:0. Allir þrír voru varamenn. 

Ángel Di María spilaði þá sinn síðasta landsleik fyrir Argentínu eftir glæstan feril með landsliðinu. 

Ángel Di María vann bikar í sínu síðasta leik með …
Ángel Di María vann bikar í sínu síðasta leik með Argentínu. AFP/Buda Mendes
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert