Ítalía, Holland og England náðu í kvöld þeim þremur sætum á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu 2025 sem voru í boði í A-deild undankeppninnar en henni lauk í kvöld.
Ítalir unnu Finna, 4:0, í hreinum úrslitaleik liðanna og Holland og Noregur skildu jöfn, 1:1, í sama riðli, en öll fjögur liðin gátu farið áfram. Ítalir og Hollendingar fengu 9 stig og fara á EM en Norðmenn með 7 stig og Finnar með 5 fara í umspilið.
Svíar og Englendingar gerðu markalaust jafntefli og það dugði enska liðinu til að ná öðru sæti riðilsins, þremur stigum á undan Svíum sem hefðu farið áfram með sigri.
Svíar fara því í umspilið, eins og Írar sem fengu sín fyrstu stig með óvæntum sigri á Frökkum, 3:1.
Það eru því Þýskaland, Ísland, Ítalía, Holland, Spánn, Danmörk, Frakkland og England sem eru komin á EM ásamt gestgjöfunum í Sviss.
Í haust fer fram umspil um síðustu sjö sætin þar sem leiknar verða tvær umferðir á milli 28 liða úr A-, B- og C-deildum undankeppninnar. Dregið verður til þeirra á föstudaginn.