Argentínska landsliðið sakað um kynþáttaníð

Argentína er Am­er­íku­bikar­meist­ari árið 2024.
Argentína er Am­er­íku­bikar­meist­ari árið 2024. AFP/Buda Mendes

Knattspyrnumaðurinn Enzo Fernandez baðst afsökunar eftir að myndband af honum og liðsfélögum hans í argentínska landsliðinu að syngja lag um franska landsliðið fór á netið, en lagið er með niðrandi texta.

Argentínska landsliðið var að fagna sigri á Kól­umb­íu í úrslitaleiknum í Ameríkubikarnum og var í rútu þegar leikmenn liðsins sungu lag sem var gert um franska landsliðið á HM 2022. Textinn inniheldur kynþáttaníð og fordóma en í textanum segir meðal annars að franska landsliðið sé allt frá Angóla en lagið var samið af stuðningsmönnum Argentínu.

Fernandez var í beinni á samfélagsmiðlinum Instagram þegar liðið fór að syngja lagið.

Franski liðsfélagi Fernandez hjá Chelsea í ensku úrvalsdeildinni, Wesley Fofana, birti myndband af liðinu syngja lagið.

„Fótbolti árið 2024: óhindrað kynþáttaníð,“ skrifaði Fofana við myndbandið.

Fernandes birti afsökunarbeiðni á Instagram. „Ég vil biðjast afsökunar á myndbandi sem fór á Instagram síðuna mína meðan landsliðið var að fagna. Lagið inniheldur niðrandi texta og það er enginn afsökun fyrir þessum orðum. Ég er á móti fordómum og biðst afsökunar á að gleyma mér í fagnaðarlátunum.   Þetta myndband, þetta augnablik og þessi texti sýnir ekki hvernig manneskja ég er, fyrirgefið.“

Ljósmynd/Enzo Fernandes
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert