Blikinn frá Belgíu til Noregs

Stefán Ingi er orðinn leikmaður Sandefjord í Noregi.
Stefán Ingi er orðinn leikmaður Sandefjord í Noregi. Ljósmynd/Sandefjord

Framherjinn Stefán Ingi Sigurðarson er kominn til norska félagsins Sandefjord og skrifað undir samning til ársins 2027. Hann kemur til Sandefjord frá Patro Eisden í Belgíu.

Í frétt á heimasíðu Sandefjord kemur fram að Halmstad og Strømsgodset hafi einnig haft áhuga á Stefáni en hann valið Sandefjord.

Hinn 23 ára gamli Stefán er uppalinn hjá Breiðabliki en hann hefur einnig leikið með Grindavík, ÍBV og HK hér á landi. Hann gekk í raðir Patro Eisden á síðustu leiktíð.

Hann hefur skorað tíu mörk í 16 leikjum í efstu deild hér á landi og 16 mörk í 29 leikjum í 1. deildinni.

Sandefjord er í botnsæti norsku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir 15 leiki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert