Ég er að drekka mig í hel

Martin Fenin lék tæplega 100 deildarleiki með Frankfurt.
Martin Fenin lék tæplega 100 deildarleiki með Frankfurt. Ljósmynd/Frankfurt

Knattspyrnumaðurinn fyrrverandi Martin Fenin glímir við mikinn áfengisvanda, en hann drekkur alla daga þrátt fyrir að vera nýkominn úr meðferð.

Fenin ræddi um fíknina við þýska dagblaðið Bild. Fenin, sem er 37 ára Tékki, lék tæplega 100 leiki í efstu deild Þýskalands. Þá skoraði hann þrjú mörk í 16 leikjum fyrir tékkneska landsliðið. Hann lék lengst af með Frankfurt.

„Ég er byrjaður að drekka aftur, á virkum dögum. Ég hef ekki hætt að drekka síðan ég fór úr meðferð. Ég er að drekka mig í hel,“ sagði Fenin við þýska miðilinn.

Hann eyðir öllum dögum í að horfa á myndbönd á YouTube og drekka Jägermeister, eftir að eiginkona hans fór frá honum og tók þriggja ára dóttur þeirra með sér.

„Ég er að drepa mig með drykkju,“ sagði hann. Fenin slapp vel árið 2018 þegar hann glímdi við erfiðan lifrasjúkdóm og var í dái í nokkrar vikur.

Á meðal þeirra sem hafa reynt að veita honum hjálparhönd eru Milan Baros og Tomas Ujfalusi sem léku með honum hjá tékkneska landsliðinu. Baros lék m.a. með Liverpool.

„Þeir hjálpuðu mér að komast í meðferð og ég drakk ekki á meðan ég var í meðferðinni. Það gaf mér smá von,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert