Hákon getur mætt Mourinho

Hákon Arnar Haraldsson leikur með Lille sem freistar þess að …
Hákon Arnar Haraldsson leikur með Lille sem freistar þess að komast í riðlakeppni Meistaradeildar. AFP/Sameer Al-Doumy

Hákon Arnar Haraldsson og samherjar hans í franska liðinu Lille hefja keppni í 3. umferð undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta en dregið var til hennar í morgun.

Lille mun þar mæta sigurvegaranum úr einvígi Lugano frá Sviss og Fenerbahce frá Portúgal, sem mætast í 2. umferð keppninnar í þessari viku og þeirri næstu, og spila fyrri leikinn á heimavelli.

Knattspyrnustjóri Fenerbahce er enginn annar en hinn gamalkunni Portúgali, José Mourinho, sem hefur m.a. stýrt Chelsea, Manchester United, Inter Mílanó og Real Madrid.

Alfons mætir Salzburg

Alfons Sampsted og samherjar í hollenska liðinu Twente mæta einnig til leiks í 3. umferð undankeppninnar og þeir drógust gegn Salzburg frá Austurríki.

Elías Rafn Ólafsson landsliðsmarkvörður og samherjar hans í danska meistaraliðinu Midtjylland ættu að vinna UE Santa Coloma frá Andorra í 2. umferðinni og þá leika þeir væntanlega gegn Ferencváros frá Ungverjalandi í 3. umferð en Ferencváros mætir The New Saints frá Wales í 2. umferð.

Ef Víkingar hefðu slegið út Shamrock Rovers og mætt Spörtu Prag, hefði þeirra beðið möguleg viðureign gegn FCSB frá Rúmeníu eða Maccabi Tel Aviv frá Ísrael í 3. umferð.

Þessi lið drógust saman í 3. umferð undankeppni Meistaradeildarinnar:

Lincoln Red Imps eða Qarabag - Ludogorets eða Dinamo Minsk
Celje eða Slovan Bratislava - APOEL Nikósía eða Petrocub
Shamrock eða Sparta Prag - FCSB eða Maccabi Tel Aviv
Malmö eða KÍ Klaksvík - PAOK eða Borac Banja Luka
UE Santa Coloma eða Midtjylland - Ferencváros eða The New Saints
Panevezys eða Jagiellonia - Bodö/Glimt eða RFS Riga
Slavia Prag - Royale Union SG
Lille - Lugano eða Fenerbahce
Dynamo Kiev eða Partizan Belgrad - Rangers
Salzburg - Twente

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert