Rúnar byrjar tímabilið á bekknum

Rúnar Alex Rúnarsson er á varamannabekk FCK í dag.
Rúnar Alex Rúnarsson er á varamannabekk FCK í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu til skamms tíma, fær ekki tækifæri í byrjunarliði FC Köbenhavn í fyrsta leik liðsins á tímabilinu í Danmörku í dag.

Köbenhavn sækir þá Lyngby heim í fyrstu umferð úrvalsdeildarinnar í sannkölluðum Íslendingaslag.

Rúnar kom til FC Köbenhavn snemma á árinu og var varamarkvörður liðsins út tímabilið en Pólverjinn Kamil Grabara varði þá mark liðsins og yfirgaf svo félagið í sumar.

Nú er það hins vegar Englendingurinn Nathan Trott sem ver markið gegn Lyngby í dag en hann kom til félagsins frá West Ham í sumar eftir að hafa leikið sem lánsmaður í marki Vejle í Danmörku undanfarin tvö ár.

Rúnar lék síðast deildarleik 16. desember þegar hann varði mark Cardiff gegn Hull í ensku B-deildinni.

Orri Steinn Óskarsson er hins vegar í byrjunarliði FCK en hann festi sig vel í sessi með liðinu síðasta vetur. Kolbeinn Birgir Finnsson og Sævar Atli Magnússon leika með Lyngby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert