„Mesti sirkus sem ég hef séð“

Javier Mascherano, þjálfari Argentínu.
Javier Mascherano, þjálfari Argentínu. AFP

Javier Mascherano, þjálfari argentínska karlalandsliðsins í fótbolta á Ólympíuleikunum í París, var brjálaður eftir leik liðsins gegn Marokkó í dag.

 Argentína skoraði á 16. mínútu uppbótartímans og allt sauð upp úr, áhorfendur fóru inn á völlinn og það var kastað flugeldum og vatnsflöskum í átt að leikmönnum Argentínu.

Leikurinn var þá stöðvaður í tvo tíma og þegar hann byrjaði aftur var markið dæmt af vegna rangstöðu og leikurinn endaði 2:1 fyrir Marokkó.

„Þetta er mesti sirkus sem ég hef séð. Í dag var farið sjö sinnum inn á völlinn og kastað flugeldum í okkur,“ sagði Mascherano og hélt áfram.

„Það var svo sagt við okkur að leikurinn hefði endað 2:2, Marokkó vildi ekki einu sinni halda áfram með leikinn.

Það sem gerðist í dag var skandall, þetta eru Ólympíuleikarnir. Þeir sögðu okkur aldrei að það væri verið að skoða markið. Við ætlum ekki að leggja fram kvörtun, þetta er búið og við höldum áfram.“

Flugeldum og flöskum var kastað í átt að argentínska liðinu.
Flugeldum og flöskum var kastað í átt að argentínska liðinu. AFP/Arnaud Finistre
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert