Reknir fyrir að njósna um mótherja

Ólympíumeistararnir eru í klandri
Ólympíumeistararnir eru í klandri AFP/C. MORGAN ENGEL

Tveimur meðlimum þjálfarateymis kanadíska kvennalandsliðsins í fótbolta hefur verið sagt upp störfum en aðilarnir eru sakaðir um að hafa njósnað um mótherja Kanada með hjálp dróna. Kanada er ríkjandi Ólympíumeistari í fótbolta og mætir Nýja-Sjálandi í fyrsta leik seinni partinn á morgun, fimmtudag.

Í gær lýsti nýsjálenska ólympíunefndin því yfir að dróni hefði flogið yfir æfingasvæði knattspyrnuliðs þjóðarinnar og tekið myndbönd af því sem fram fór á æfingunni. Nefndin segir drónann vera í eigu starfsmann kanadíska landsliðsins.

Kanadíska ólympíunefndin svaraði að bragði og lofaði að rannsaka málið til hlýtar en því lauk í dag þegar tveimur meðlimum þjálfarateymisins var sagt upp og þeir sendir heim frá París. Joseph Lombardi, leikgreinandi, og Jasmine Mander, aðstoðarþjálfari og yfirmaður Lombardi, eru þjálfararnir sem eiga í hlut.

Kanadamenn hafa beðist afsökunar og þjálfari liðsins, Beverley Priestmann, hefur boðist til að stíga til hliðar sem þjálfari liðsins í leik morgundagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert