Ajax lék Evrópuleik innanhúss

Kristian Nökkvi Hlynsson og félagar unnu 1:0 undir þaki í …
Kristian Nökkvi Hlynsson og félagar unnu 1:0 undir þaki í gærkvöld. AFP/Maurice van Steen

Hollenska liðið Ajax, sem Kristian Nökkvi Hlynsson leikur með, þurfti að leika heimaleik sinn í undankeppni Evrópudeildarinnar í fótbolta gegn Vojvodina Novi Sad frá Serbíu með þakið yfir leikvangi sínum, Johan Cruijff Arena.

Þakið er almennt ekki dregið yfir leikvanginn að sumri til en þó gert þegar veðurútlit er slæmt. Þegar lið Vojvodina æfði á vellinum daginn fyrir leik var slæm veðurspá og til að hlífa nýju grasi á vellinum eins og mögulegt væri ákváðu forráðamenn vallarins að draga þakið yfir.

Þetta var afdrifaríkt, því annars vegar rættist veðurspáin ekki og þetta hefði verið óþarfi, og hins vegar kveða reglur UEFA á um að vallarskilyrði eigi að vera þau sömu daginn fyrir leik þegar aðkomuliðið æfir, og á leikdeginum.

Þar með neyddust Ajax-menn til að vera með þakið yfir vellinum þegar leikurinn fór fram í gærkvöld.

Ajax vann leikinn naumlega, 1:0, og Kristian Nökkvi, sem var fastamaður í liðinu síðasta vetur, sat á varamannabekknum allan tímann.

Johan Cruijff-leikvangurinn með þakið dregið yfir.
Johan Cruijff-leikvangurinn með þakið dregið yfir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert