Sexfaldir meistarar á leið í gjaldþrot

AFP/Philippe Lopez

Franska knattspyrnufélagið Bordeaux hefur óskað eftir gjaldþrotaskiptum í kjölfar þess að ekkert varð af því að eigendur Liverpool, Fenway Sports Group, keyptu félagið.

Bordeaux hefur sex sinnum orðið franskur meistari, síðast árið 2009, og varð bikarmeistari í fjórða sinn árið 2013. Félagið á að baki 202 Evrópuleliki, þar af 142 í UEFA-bikarnum og Evrópudeildinni, síðast þegar liðið lék í riðlakeppni Evrópudeildarinnar haustið 2018.

Einn Íslendingur hefur leikið með félaginu en Arnór Guðjohnsen spilaði með Bordeaux á árunum 1990 til 1992.

Bordeaux endaði í þriðja sæti frönsku B-deildarinnar í vor, þremur stigum á eftir Metz  sem fór upp í 1. deildina. Félagið var í sumar fellt niður í C-deildina vegna fjárhagsvandræða. Þeirri ákvörðun var áfrýjað en Bordeaux hefur nú dregið þá áfrýjun til baka.

Gjaldþrotið þýðir að félagið hættir störfum sem atvinnufélag, sem það hefur verið frá árinu 1937, og verður flutt niður í áhugamannadeild.

Leikvangur Bordeaux, Nouveau Stade de Bordeaux, rúmar 42 þúsund áhorfendur og er einn af völlunum sem spilað er á í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert