Orri skoraði tvö - þrjú Íslendingalið áfram

Orri Steinn Óskarsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Orri Steinn Óskarsson skoraði tvö mörk í kvöld. Ljósmynd/Alex Nicodim

Orri Steinn Óskarsson skoraði tvívegis fyrir danska liðið FC Köbenhavn í dag þegar þrjú Íslendingalið tryggðu sæti í 3. umferð í Evrópu- og Sambandsdeildum karla í fótbolta.

Orri kom inn á sem varamaður hjá FCK gegn Magpies frá Gíbraltar í 2. umferð Sambandsdeildar á Parken í Kaupmannahöfn eftir 55 mínútur og skoraði þriðja og fimmta mark liðsins í 5:1 sigri. FCK var með allt í hendi sér eftir útisigur, 3:0, í fyrri leiknum. Rúnar Alex Rúnarsson varði mark danska liðsins í kvöld.

Guðmundur Þórarinsson lék fyrstu 73 mínúturnar með armenska liðinu Noah þegar það gerði markalaust jafntefli við Sliema Wanderers á Möltu í 2. umferð Sambandsdeildar. Noah var með allt í sínum höndum eftir að hafa unnið fyrri leikinn 7:0.

Sænska liðið Elfsborg er komið í 3. umferð Evrópudeildarinnar eftir heimasigur á Sheriff Tiraspol, 2:0, en Elfsborg hafði unnið fyrri leikinn í Moldóvu 1:0. Eggert Aron Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá Elfsborg á 67. mínútu en Andri Fannar Baldursson kom ekkert inn á í leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert