Davíð skoraði dýrmætt mark

Davíð Snær Jóhannsson í treyju Aalesund.
Davíð Snær Jóhannsson í treyju Aalesund. Ljósmynd/aafk.no

Davíð Snær Jóhannsson skoraði fyrra mark Aalesund í dag þegar liðið vann dýrmætan útisigur á Raufoss, 2:0, í norsku B-deildinni í knattspyrnu.

Aalesund féll úr úrvalsdeildinni í fyrra og hefur verið í tómu basli það sem af er tímabilinu og sat á botninum með tvo sigra í fimmtán leikjum fyrir leikinn í dag.

Nú er liðið komið úr botnsætinu og upp fyrir Sandnes Ulf með 12 stig en næst fyrir ofan eru Mjöndalen með 14 og Start með 16 stig.

Davíð skoraði strax á 11. mínútu leiksins en hann lék allan leikinn á miðjunni hjá Aalesund.

Óskar Borgþórsson lék allan leikinn með Sogndal sem vann góðan útisigur á Egersund, 2:0, og er komið upp í fjórða sæti með 29 stig.

Róbert Orri Þorkelsson lék allan leikinn í vörn Kongsvinger sem gerði jafntefli við Ranheim á útivelli, 2:2. Kongsvinger er í sjötta sæti með 27 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert