Orðinn yfirmaður hjá Norrköping

Magni Fannberg er yfirmaður knattspyrnumála hjá Norrköping.
Magni Fannberg er yfirmaður knattspyrnumála hjá Norrköping. Ljósmynd/AIK

Magni Fannberg hefur tekið við starfi yfirmanns knattspyrnumála hjá sænska úrvalsdeildarfélaginu Norrköping í karlaflokki, til bráðabirgða.

Magni, sem er 44 ára gamall, hefur starfað hjá félaginu sem tæknilegur ráðgjafi karlaliðs Norrköping síðan um miðjan júní en Tony Martinsson, yfirmaður knattspyrnumála, slasaðist illa í umferðaróhappi fyrir skömmu og er óvinnufær næstu mánuðina af þeim sökum.

Magni var síðast yfirmaður knattspyrnumála hjá Start í Noregi en hætti störfum þar í lok síðasta árs. Áður hefur hann starfað hjá AIK í Svíþjóð, Brann í Noregi og Brommapojkarna í Svíþjóð.

Hjá Brommapojkarna var hann þjálfari í nokkur ár, m.a. eitt ár með karlalið félagsins, en starfaði fram að því við þjálfun á Íslandi þar sem hann var síðast þjálfari 1. deildarliðs Fjarðabyggðar áður en hann fór til Svíþjóðar.

Norrköping hefur verið í talsverðu basli í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og var dottið niður í botnsæti deildarinnar í byrjun júlí. Það er núna í þriðja neðsta sætinu eftir tvo sigra í röð, með 17 stig úr 16 leikjum.

Með Norrköping leika Arnór Ingvi Traustason og Ísak Andri Sigurgeirsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert