Hin 19 ára gamli Cesar Palacios varð fyrir því óláni að slíta krossband í hné í sínum fyrsta leik með Real Madrid er liðið lék við AC Milan í æfingaleik í fótbolta í Chicago á miðvikudag.
Palacios fór sárþjáður af velli og nú er ljóst að krossbandið er slitið. Verður hann því frá keppni næstu 8-9 mánuðina.
Leikmaðurinn hefur leikið með varaliði Real í C-deild Spánar undanfarin ár en fékk tækifæri til að láta ljós sitt skína með aðalliðinu.
Miðjumaðurinn hefur skorað þrjú mörk í 36 leikjum með varaliði Real og leikið með yngri landsliðum Spánar.