Ítalíumeistarar Inter Mílanó er eitt fjölmargra félaga sem hafa mikinn áhuga á að kaupa íslenska sóknarmanninn Albert Guðmundsson frá Genoa.
Albert vakti athygli stærstu félaga Ítalíu með glæsilegu tímabili með Genoa á síðustu leiktíð og hefur Fiorentina þegar boðið formlega í Albert.
Calciomercato greinir frá að Inter þurfi að selja þá Marko Arnautovic og Joaquin Correa til að geta blandað sér að alvöru í baráttuna um Albert.
Arnautovic og Correa eru á háum launum hjá Inter og hefur félaginu gengið erfiðlega að selja þá félaga til að eiga möguleika á að fá aðra leikmenn í staðinn.