Orri og félagar áfram eftir vítakeppni

Orri Steinn Óskarsson og félagar eru komnir áfram.
Orri Steinn Óskarsson og félagar eru komnir áfram. Ljósmynd/Alex Nicodim

Danska liðið FC Kaupmannahöfn er einu einvígi frá riðlakeppni Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta eftir að liðið sló Ostrava frá Tékklandi úr leik á útivelli eftir mikla dramatík í kvöld.  

FCK vann fyrri leikinn í Kaupmannahöfn 1:0 og Erik Prekop skoraði fyrir Tékkana á 42. mínútu. Reyndist það eina markið í venjulegum leiktíma og framlengingu og réðust úrslitin því í vítakeppni.

Í henni skoraði FCK úr tveimur spyrnum og Ostrava aðeins einni. Orri Steinn Óskarsson lék allan leikinn með FCK og mistókst að skora úr sinni vítaspyrnu.

Danska liðið mætir Kilmarnock frá Skotlandi í næstu umferð.

Guðmundur Þórarinsson og samherjar hans hjá armenska liðinu Noah eru einnig komnir áfram þrátt fyrir tap gegn AEK Aþenu á útivelli, 1:0. Noah vann fyrri leikinn 3:1 og einvígið 3:2.

Guðmundur lék allan leikinn með Noah sem mætir Hadjuk Split frá Króatíu eða Ruzomberok frá Slóvakíu í næstu umferð.

Þá er sænska liðið Elfsborg einnig komið áfram eftir sigur á Rijeka frá Króatíu á heimavelli, 2:0. Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson voru báðir allan tímann á bekknum hjá Elfsborg.

Liðið mætir Molde frá Noregi í Norðurlandaslag í næstu umferð.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert