Gætu gefið leikmönnum frí á miðju tímabili

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid.
Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid. AFP/Odd Andersen

Carlo Ancelotti, stjóri Real Madrid, segir að félagið sé að íhuga að gefa leikmönnum frí vegna gríðarlegs leikjaálags í vetur.  

Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu en ummæli Ancelotti koma í kjölfar þess að samtök atvinnumanna á Englandi og leikmannasamtökin Fifpro ætla að lögsækja Fifa vegna gríðarlega þéttri leikjadagskrá leikmanna.  

„Leikmennirnir þurfa hvíld, þeir þurfa frí og við erum að íhuga að gefa leikmönnum frí á miðju tímabili,“ sagði Ancelotti  

 Aukið leikjaálag er á leikmönnum á þessu tímabili en nýtt fyrirkomulag á heimsmeistaramóti félagsliða fer fram í júní og stendur yfir fram í júlí sem mun lengja tímabilið töluvert.  

„Við erum að íhuga að gefa leikmönnum frí í viku hér og þar svo þeir geti eytt tíma með fjölskyldu sinni, sérstaklega landsliðsmenn sem fá litla hvíld þar sem þeir fá ekki einu sinni hvíld í landsleikjahléum,“ sagði Ancelotti sem segir að félagið sé að skoða þetta með læknateymi og sjúkraþjálfurum.  

Ancelotti gaf gott dæmi um hvernig Real Madrid ætlar að tækla leikjaálagið.  

„Til dæmis, þegar Vinicius Jr. kemur til baka eftir að hafa spila með Brasilíu. Í staðinn fyrir að spila strax með okkur í spænsku 1. deildinni þá mun hann hvíla í þrjá til fjóra daga, hann fer í frí og kemur síðan til baka.“  

„Það er er eina leiðin. Venjulega æfa þessir leikmenn þótt þeir spila ekki. En við ætlum að breyta því. Láta þá gera það sem þá langar til þessa daga. Það er það sem við ætlum að gera.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert