Bestu vinir og samherjar

Alfons Sampsted samdi við Birmingham City.
Alfons Sampsted samdi við Birmingham City. Ljósmynd/Birmingham

Alfons Sampsted landsliðsmaður í knattspyrnu skipti á dögunum úr Twente í efstu deild Hollands og til Birmingham í C-deild Englands. Birmingham féll á síðustu leiktíð og ætlar sér beint aftur upp í B-deildina.

Félagið hefur fengið til sín marga leikmenn fyrir nýhafið tímabil, en Willum Þór Willumsson gekk í raðir Birmingham stuttu á undan Alfons. Bakvörðurinn var lánaður til Birmingham, en verður keyptur alfarið eftir tímabilið.

„Þetta eru í rauninni lánsskipti með skyldu til að kaupa mig. Það var eitthvað sem félögin ákváðu sín á milli, að hafa þetta sem lán. Þeir verða að kaupa mig, svo lengi sem við föllum ekki. Í grunninn má segja að þetta séu félagaskipti frekar en bara lánsskipti,“ útskýrði Alfons í samtali við Morgunblaðið.

Birmingham var í ensku úrvalsdeildinni á uppvaxtarárum Alfons. Er um að ræða draum að rætast hjá landsliðsmanninum.

„Það var líka hluti af því sem gerði þetta heillandi. Maður hefur horft á enska fótboltann mjög lengi og ég hef séð Birmingham spila nokkrum sinnum. Þetta er lítill draumur sem hefur verið innra með manni. Þá verður maður að grípa tækifærið þegar það kemur.“

Vorum saman á leikskóla

Alfons og Willum Þór eru báðir fæddir árið 1998 og uppaldir í Breiðabliki. Þeir voru saman á leikskóla og hafa alla tíð verið miklir og góðir vinir. Alfons samgladdist Willum þegar hann skoraði í 3:2-sigri á Wycombe í 2. umferðinni um nýliðna helgi.

„Ég lít á hann sem besta vin minn. Hann var að sjálfsögðu spurður út í mig, áður en ég kom. Það var samt ekki þannig sem Birmingham fékk áhugann á mér. Umboðsmaðurinn minn er líka með Emil Hansson hjá Birmingham, sænskan kantmann, og í raun og veru opnast tenging við mig og félagið í gegnum hann. Það er í rauninni tilviljun að við Willum endum í sama félagi.

Við fórum saman upp alla yngri flokkana, spiluðum saman með landsliðunum og vorum saman á leikskóla. Ég hef spilað þó nokkuð mikið með honum í gegnum tíðina. Við ættum að þekkja hvor annan vel. Það var geggjað að sjá hann skora og ég var fyrstur til að hlaupa út í horn að fagna með honum,“ sagði Alfons.

Viðtalið við Alfons má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert