Bjóða Íslendingum í Köben frítt á völlinn

Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Breiðabliki á síðasta tímabili.
Ágúst Eðvald Hlynsson í leik með Breiðabliki á síðasta tímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingalið AB í knattspyrnu karla býður Íslendingum búsettum í Kaupmannahöfn frítt á næsta heimaleik liðsins í dönsku C-deildinni.

AB er fornfrægt félag sem leikur í Gladsaxe á Sjálandi, skammt norðan við dönsku höfuðborgina. Liðið lék síðast í úrvalsdeildinni fyrir 20 árum og setur nú stefnuna upp í B-deildina, þar sem liðið lék síðast fyrir sjö árum.

Leika tveir Íslendingar með liðinu, Ágúst Eðvald Hlynsson og Ægir Jarl Jónasson, auk þess sem Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfar liðið og Fannar Berg Gunnólfsson er í þjálfarateyminu.

Ágúst Eðvald skrifaði færslu í Facebook-hópinn Íslendingar í Kaupmannahöfn og benti þar Íslendingum á að þeir gætu fengið frítt á heimaleik liðsins gegn Aarhus Fremad næstkomandi föstudagskvöld, og hvatti alla sem gætu að mæta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert