Kolbeinn fer til Hollands

Kolbeinn Birgir Finnsson og Trent Alexander-Arnold í leik Íslands og …
Kolbeinn Birgir Finnsson og Trent Alexander-Arnold í leik Íslands og Englands á Wembley í sumar. Ljósmynd/Alex Nicodim

Kolbeinn Birgir Finnsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er á leið til hollenska félagsins Utrecht frá danska félaginu Lyngby.

Utrecht leikur í hollensku úrvalsdeildinni og hafnaði í sjöunda sæti hennar á síðasta tímabili.

Danski knattspyrnumiðillinn Tipsbladet greinir frá því að Lyngby hafi samþykkt tilboð upp á 500.000 evrur, jafnvirði rúmlega 76 milljóna íslenskra króna, og að Kolbeinn muni skrifa undir þriggja ára samning með möguleika á árs framlengingu.

Þýska 1. deildar liðið Holstein Kiel bauð sömu upphæð í vinstri bakvörðinn, sem Lyngby samþykkti einnig, en Kolbeinn valdi hollenska félagið.

Hann er 24 ára gamall og hefur leikið með Lyngby frá því í janúar 2023. Áður hafði Kolbeinn verið á mála hjá Borussia Dortmund, Brentford og Groningen eftir að hafa hafið ferilinn hjá uppeldisfélaginu Fylki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert