Stuðningsmenn bálreiðir út í Albert

Albert Guðmundsson er orðinn leikmaður Fiorentina.
Albert Guðmundsson er orðinn leikmaður Fiorentina. Ljósmynd/Fiorentina

Stuðningsmenn ítalska knattspyrnufélagsins Genoa eru allt annað en sáttir við að Albert Guðmundsson hafi farið frá félaginu og til Fiorentina. 

Albert gekk til liðs við Fiorentina á láni frá Genoa á dögunum en félagið greiðir átta millj­ón­ir evra fyr­ir lánið og get­ur síðan keypt ís­lenska sókn­ar­mann­inn á 20 millj­ón­ir til viðbót­ar eft­ir tíma­bilið.

Fiorentina hafnaði í áttunda sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð og mun taka þátt í Sambandsdeildinni í haust. 

Var aðalkallinn í Genoa-borg

Albert kom til Genoa í janúar 2022 en liðið féll niður í ítölsku B-deildina það tímabil. Albert var svo einn af lykilmönnum Genoa þegar að liðið komst beint aftur upp ári seinna. 

Á síðustu leiktíð var hann síðan aðalmaðurinn í Genoa-borg og skoraði 16 mörk í deildinni er liðið hélt sér þægilega uppi. 

Hann var dáður af stuðningsmönnum Genoa en eftir félagaskiptin hefur það breyst hjá mörgum þeirra.

Kallaður „fjólublátt drasl“

Albert sendi frá sér hjartnæma kveðju til stuðningsmanna Genoa á Instagram-síðu sinni eftir að hann yfirgaf félagið. Margir þeirra voru afar ósáttir við Íslendinginn og skildu eftir athugasemdir. 

„Fjólubláa drasl,“ sagði einn þeirra en búningur Fiorentina er fjólublár. 

Aðgangurinn Genoa_fans, sem er með 22 þúsund fylgjendur, sagði þá að Albert hefði frekar átt að þaga yfir þessu. 

Annar stuðningsmaður vildi meina að Albert væri aðeins að fara til Fiorentina vegna peningsins. Þá kalla aðrir hann öllum illum nöfnum.

Flestir stuðningsmenn eru þá frekar ósáttir við að hann hafi valið Fiorentina af öllum félögum. Þeir vilja meina að það sé ekki stórt skref upp á við, eins og til dæmis Inter Mílanó væri. 

Vert er að nefna að margir stuðningsmenn Genoa þökkuðu Alberti fyrir tíma hans hjá félaginu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert