Ósanngjarnt að fresta leikjum

Jacob Neestrup í treyju FH.
Jacob Neestrup í treyju FH. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jacob Neestrup, þjálfari Orra Steins Óskarssonar og félaga í FC Kaupmannahöfn, er á móti því að félög fresti deildarleikjum til að auka möguleika sína í Evrópukeppnum. Neestrup segir það ósanngjarnt að félög fái mislangan undirbúning fyrir Evrópuleiki.

FCK mætir skoska liðinu Kilmarnock í kvöld í Parken í Kaupmannahöfn en Skotarnir vilja gjarnan fresta deildarleik liðsins gegn Aberdeen á sunnudag til að hafa meiri tíma til endurheimtar og undirbúnings fyrir síðari leikinn gegn FCK sem fram fer í næstu viku.

Jacob Neestrup ræðir við Orra Stein Óskarsson.
Jacob Neestrup ræðir við Orra Stein Óskarsson. AFP/Paul Ellis

Neestrup finnst að evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) eigi að stíga inn í málið og hindra að félög geri þetta. 

„Ábyrgðin liggur hjá UEFA og liðin eiga að mætast á jafnréttisgrundvelli,“ segir Daninn við Tipsbladet. „Hvernig sem maður lítur á þetta þá er þetta ósanngjarnt, fyrir Brøndby ef Legia Varsjá getur fært leikina sína eftir hentugleika, fyrir okkur í fyrra gegn Rakow og í ár gegn Banik Ostrava. Það sama gildir um Kilmarnock í þessu tilfelli.“

Valdimar Þór Ingimundarson í leik Víkings og Flora Tallinn í …
Valdimar Þór Ingimundarson í leik Víkings og Flora Tallinn í Sambandsdeild Evrópu. mbl.is/Eyþór Árnason

Bikarúrslitaleik Víkings og KA var frestað um mánuð vegna þátttöku Víkings í undankeppni Sambandsdeildar Evrópu og mikil umræða hefur átt sér stað um frestanir á deildarleikjum á Íslandi til að hjálpa íslenskum liðum að ná árangri í Evrópukeppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert