Valgeir lagði upp og meiddist – Köbenhavn og Elfsborg unnu

Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Valgeir Lunddal Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Valgeir Lunddal Friðriksson lagði upp mark sænska liðsins Häcken þegar það tapaði á heimavelli fyrir þýska liðinu Heidenheim, 1:2, í fyrri leik liðanna í 4. umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu í kvöld.

Valgeir lagði upp jöfnunarmark fyrir Mikkel Rygaard á 36. mínútu og fór svo meiddur af velli tveimur mínútum síðar. Heidenheim tryggði sér svo sigurinn í síðari hálfleik.

Orri Steinn Óskarsson lék allan leikinn í fremstu víglínu hjá FC Köbenhavn sem lagði skoska liðið Kilmarnock að velli í Kaupmannahöfn, 2:0.

Kevin Diks og Rasmus Falk skoruðu mörk Köbenhavn. Rúnar Alex Rúnarsson var varamarkvörður liðsins.

Loks vann Elfsborg sterkan útisigur á Molde, 1:0, í 4. umferð undankeppni Evrópudeildarinnar.

Bæði Andri Fannar Baldursson og Eggert Aron Guðmundsson voru allan tímann á varamannabekknum hjá Elfsborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert