Víkingar í frábærri stöðu þrátt fyrir tvö vítaklúður

Nikolaj Hansen fagnar marki sínu ásamt Erlingi Agnarssyni.
Nikolaj Hansen fagnar marki sínu ásamt Erlingi Agnarssyni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur úr Reykjavík eru í afar vænlegri stöðu eftir sigur á UE Santa Coloma frá Andorra, 5:0, í fyrri leik liðanna í 4. umferð undankeppni Sambandsdeildar karla í knattspyrnu á Víkingsvellinum í kvöld.

Seinni leikurinn fer fram í Andorra eftir slétta viku en sigurvegarinn verður með í lokakeppni Sambandsdeildarinnar.

Víkingar hófu leikinn af krafti og var mun meiri orka í liðinu heldur en í síðustu leikjum. 

Fyrirliðinn Nikolaj Hansen kom Víkingi yfir á 30. mínútu, 1:0. Þá gaf Ari Sigurpálsson boltann fyrir og þar voru Valdimar Þór Ingimundarson og Nikolaj. 

Valdimar Þór rétt svo missti af boltanum en þaðan barst hann til Nikolaj sem skoraði í opið markið. 

Rautt spjald á fyrirliðann

Víkingar fengu síðan vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks. Þá braut Christian Garcia, fyrirliði UE Santa Coloma, á Nikolaj í teig og dómarinn Ante Culina benti á punktinn. 

Eftir athugun í VAR-sjánni ákvað dómarinn að reka Garcia af velli þar sem hann reyndi ekki við boltann og var aftasti maður. Víkingar þar með orðnir manni fleiri. 

Aron Elís Þrándarson steig á punktinn en Alex Ruiz markvörður las hann og varði frá honum. Víkingar fóru því marki yfir til búningsklefa. 

Víkingar fengu aðra vítaspyrnu á 51. mínútu leiksins. Þá fékk varamaðurinn Jesus Rubio boltann í höndina og dómarinn benti á punktinn. 

Þá var komið að Valdimari Þór að stíga upp og hann negldi boltanum á mitt markið og kom Víkingi í 2:0. 

Annað vítaklúður og tvö mörk

Víkingar fengu síðan sína þriðju vítaspyrnu á 63. mínútu. Þá fékk Youssef El Ghzaoui boltann í höndina eftir skalla Arons Elísar.

Valdimar Þór steig aftur á punktinn en skaut himinhátt yfir. Víkingar klúðruðu því tveimur vítaspyrnum.

Gunnar Vatnhamar kom Víkingi í 3:0 stuttu síðar þegar að hann var aleinn á fjærstönginni eftir hornspyrnu og potaði boltanum inn. 

Valdimar Þór bætti við sínu öðru marki á 75. mínútu þegar að hann fékk boltann frá Aroni Elís og kom honum í netið, 4:0.

Nikolaj Hansen bætti síðan við sínu öðru marki undir blálok leiks þegar að hann skoraði eftir sendingu Valdimars Þórs, 5:0. 

Valdimar Þór Ingimundarson með boltann í kvöld.
Valdimar Þór Ingimundarson með boltann í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

HK 3:2 KR opna
90. mín. Leik lokið HK vinnur gríðarlega mikilvægan sigur gegn KR í fallbaráttunni.

Leiklýsing

Víkingur R. 5:0 UE Santa Coloma opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við leikinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert