Á Frey mikið að þakka

Kolbeinn Birgir Finnsson í búningi Utrecht.
Kolbeinn Birgir Finnsson í búningi Utrecht. Ljósmynd/Utrecht

Knattspyrnumaðurinn Kolbeinn Birgir Finnsson er spenntur fyrir komandi tímum í hollensku úrvalsdeildinni en hann skrifaði undir þriggja ára samning við Utrecht síðastliðinn miðvikudag.

Kolbeinn Birgir, sem er 24 ára gamall, gekk til liðs við Utrecht frá danska úrvalsdeildarfélaginu Lyngby þar sem hann hafði leikið frá því í janúar á síðasta ári.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Kolbeinn leikið erlendis undanfarin átta ár, að undanskildu hálfu tímabili hér á landi þegar hann lék með uppeldisfélagi sínu Fylki á láni frá Brentford á Englandi. Hann hefur einnig leikið með unglingaliði Groningen í Hollandi og unglingaliði Borussia Dortmund á atvinnumannsferlinum.

Mjög flottur klúbbur

„Ég er mjög spenntur að hefja leik og það er gott að vera kominn aftur til Hollands,“ sagði Kolbeinn í samtali við Morgunblaðið en þýska 1. deildarfélagið Holstein Kiel lagði einnig fram tilboð í Kolbein sem var samþykkt.

„Aðdragandinn að félagaskiptunum var ekki langur. Það kom tilboð frá báðum liðum á sama tíma og þetta voru tveir frábærir kostir fyrir mig. Valið var erfitt en þegar allt kom til alls leist mér aðeins betur á Utrecht. Ég þekki aðeins til þjálfara liðsins, Rons Jans, og forráðamenn félagsins lögðu allt í sölurnar til þess að fá mig.“

Á Frey mikið að þakka

Freyr Alexandersson, fyrrverandi þjálfari Lyngby, fékk Kolbein til danska félagsins en tók svo við belgíska efstudeildarfélaginu Kortrijk í ársbyrjun og reyndi að fá Kolbein til Belgíu líka.

„Freyr á stóran þátt í því hversu mikið ég hef bætt mig sem leikmaður á síðustu tveimur árum. Ég á honum mikið að þakka og ég er mjög þakklátur fyrir það traust sem hann sýndi mér, alveg frá því að ég kom fyrst til Lyngby. Það var líka undir sjálfum mér komið að grípa tækifærið sem hann gaf mér og ég gerði það.“

Viðtalið í heild sinni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert