Dramatískt sigurmark Þýskalandsmeistaranna

Leikmenn Bayer Leverkusen fagna dramatísku sigurmarki Florians Wirtz í kvöld.
Leikmenn Bayer Leverkusen fagna dramatísku sigurmarki Florians Wirtz í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Bayer Leverkusen hóf titilvörnina í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu karla með því að vinna ótrúlegan sigur á Borussia Mönchengladbach, 3:2, í upphafsleik deildarinnar í Mönchengladbach í kvöld.

Leverkusen náði tveggja marka forystu í fyrri hálfleik þegar Granit Xhaka og Florian Wirtz skoruðu.

Mark Xhaka var sérlega glæsilegt, þrumufleygur langt fyrir utan vítateig sem söng í netinu gegn gömlu félögum hans.

Í síðari hálfleik minnkaði Nico Elvedi muninn fyrir heimamenn í Gladbach áður en Tim Kleindienst jafnaði metin fimm mínútum fyrir leikslok.

Stefndi allt í að leiknum myndi lykta með jafntefli en Leverkusen tókst líkt og svo oft á síðasta tímabili að knýja fram sigurmark í blálokin.

Seint í uppbótartíma fékk Leverkusen dæmda vítaspyrnu eftir athugun í VAR.

Wirtz steig á vítapunktinn, Jonas Omlin í marki Gladbach varði frá honum en Wirtz náði frákastinu og skoraði í annarri tilraun og tryggði gestunum þannig magnaðan sigur með marki á 11. mínútu uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert