Kann enga skýringu á þessu

Xabi Alonso eftir leikinn í kvöld.
Xabi Alonso eftir leikinn í kvöld. AFP/Ina Fassbender

Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Bayer Leverkusen, gat ekki útskýrt hvernig liðið fór að því að vinna upphafsleik sinn gegn Borussia Mönchengladbach, 3:2, í þýsku 1. deildinni í kvöld.

Leverkusen varð Þýskalandsmeistari í fyrsta sinn á síðasta tímabili og sömuleiðis bikarmeistari en tapaði í úrslitaleik Evrópudeildarinnar gegn Atalanta, sem var eina tap liðsins á síðasta tímabili.

Leik eftir leik tókst Leverkusen að knýja fram dramatísk sigur- eða jöfnunarmörk sem sáu til þess að liðinu virtist það ómögulegt að tapa.

Þýskalandsmeistararnir voru við sama heygarðshornið í kvöld þegar Florian Wirtz skoraði sigurmarkið á 11. mínútu uppbótartíma.

„Ég kann enga skýringu á þessu. Svona er fótboltinn. Þetta hefur gerst mjög oft hjá okkur,“ sagði Alonso í samtali við DAZN eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert