Of gott tækifæri til að hafna

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn því …
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með íslenska landsliðinu gegn því enska í sumar. Ljósmynd/Alex Nicodim

Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu og nýr leikmaður Al-Orobah í Sádi-Arabíu, segir tilboðið frá sádiarabíska félaginu hafa komið óvænt upp.

“Þetta var tækifæri sem ég bjóst ekki við að ég fengi. Þegar þetta tækifæri gafst var það of gott til að hafna. Þetta er spennandi verkefni. Þetta var tækifæri sem ég bjóst alls ekki við að fá,” sagði Jóhann í samtali við heimasíðu Burnley.

Hann kvaddi Burnley í vor en samdi svo óvænt aftur við félagið í sumar. Jóhann kveður því félagið að nýju og gerði það með besta móti því hann skoraði í 5:0-sigri á Cardiff City í ensku B-deildinni um síðustu helgi.

„Það var erfitt að kveðja Burnley, snúa svo aftur og nú er ég að kveðja á ný. Það eru miklar tilfinningar í gangi. Það var eitthvað töfrandi við það að spila aftur á Turf Moor og ná að skora.

Ég er gríðarlega ánægður með að spila síðasta leik minn á þeim velli og ná að skora í 5:0-sigri,“ sagði Jóhann einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert