Getum ekki verið með 44 leikmenn eins og Chelsea

Leikmaðurinn Joao Palhinha og íþróttastjórinn Max Eberl.
Leikmaðurinn Joao Palhinha og íþróttastjórinn Max Eberl. AFP/Michaela Stache

Max Eberl, íþróttastjóri þýska knattspyrnufélagsins Bayern München, skaut föstum skotum á enska félagið Chelsea vegna stærðar leikmannahóps karlaliðsins.

Leikmannahópur aðalliðs Chelsea telur rúmlega 40 leikmenn og leitast enska félagið nú eftir því að losa sig við fjölda þeirra.

„Þegar maður setur upp leikmannahóp vill maður augljóslega vera með meiðslalausan hóp. Að láta leikmannahóp blása út er ekki góðs viti. Við erum með góða stærð á leikmannahópi og viljum gefa ungum leikmönnum tækifæri til þess að sýna hvað þeir geta gert á hæsta stigi.

Sem félag þarftu líka að verða þér úti um peninga einhvers staðar. Þú getur farið í gegnum tímabilið með 44 leikmenn eins og Chelsea en það verður erfitt fyrir knattspyrnustjórann að ná utan um,“ sagði Eberl á fréttamannafundi í vikunni.

„Þá þarftu að stela treyjunúmerum en við gerum ekki slíkt hjá FC Bayern,“ bætti hann við

Skaut Eberl þar á ákvörðun Chelsea að taka treyjunúmer Raheems Sterlings og Trevoh Chalobah af þeim og láta Pedro Neto og Joao Félix fá í staðinn þó Sterling og Chalobah séu enn ekki farnir neitt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert