Greenwood að skipta um landslið

Mason Greenwood leikur með Marseille í Frakklandi.
Mason Greenwood leikur með Marseille í Frakklandi. AFP/Miguel Medina

Knattspyrnumaðurinn Mason Greenwood hefur sótt um ríkisborgararétt hjá Jamaíka þar sem hann hefur áhuga á að leika fyrir landslið þjóðarinnar.

Knattspyrnusamband Jamaíka hefur í nokkra mánuði reynt að sannfæra Greenwood um að spila fyrir landslið þjóðarinnar, sem hann hefur nú samþykkt en hann er af jamaískum ættum. 

Heimir Hallgrímsson stýrði Jamaíka frá 2022 til 2024 en Englendingurinn Steve McLaren tók við liðinu af Eyjamanninum.

Greenwood spilaði einn landsleik fyrir A-landslið Englands, gegn Íslandi á Laugardalsvelli í september árið 2020. Honum er frjálst að leika fyrir annað landslið, svo lengi sem hann er ríkisborgari, þar sem hann var ekki orðinn 21 árs.

Sóknarmaðurinn er leikmaður Marseille í Frakklandi eftir að hann yfirgaf Manchester United á dögunum í kjölfar þess að hann var handtekinn og ákærður fyrir ofbeldis- og kynferðisbrot í garð unnustu sinnar. Málið var að lokum látið niður falla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert