Hraunar yfir stjörnublaðamanninn

Fabrizio Romano skrifar reglulega jákvæðar fréttir um Mason Greenwood.
Fabrizio Romano skrifar reglulega jákvæðar fréttir um Mason Greenwood. AFP/Miguel Medina

Bandaríski íþróttablaðamaðurinn Luis Paez-Pumar er allt annað en sáttur við hinn geysivinsæla kollega sinn Fabrizio Romano en Ítalinn er einn vinsælasti knattspyrnublaðamaður heims.

Romano, sem er með 22 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlinum X, sérhæfir sig í fréttum um félagaskipti. Paez-Pumer er ekki sáttur við skrif Romanos um Mason Greenwood, leikmann Marseille.

Greenwood var handtekinn í janúar 2022 og í kjölfarið ákærður fyrir ofbeldis- og kynferðisbrot gegn unnustu sinni, áður en málið var látið niður falla. Sá bandaríski er ósáttur við að Romano lætur sem það hafi aldrei gerst.

„Það er erfitt að skilja hvers vegna hann skrifar svona mikið af jákvæðum fréttum um Greenwood, leikmann sem er þekktastur fyrir að vera ásakaður um nauðgun. Hann hlýtur að fá greitt frá umboðsmanni til að koma með jákvæðar fréttir,“ skrifar Paez-Pumar á vefsíðu sína.

„Það er furðulegt að láta sem þetta neikvæða hafi aldrei gerst en kannski er þetta besta leiðin til að fá borgað,“ bætti Paez-Pumar við.

Hér fyrir neðan má sjá dæmi um jákvæða umfjöllun Romanos um Greenwood. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert