Jón Dagur í þýsku höfuðborgina

Jón Dagur Þorsteinsson er kominn til Hertha Berlín.
Jón Dagur Þorsteinsson er kominn til Hertha Berlín. Ljósmynd/Hertha Berlín

Knattspyrnumaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson er kominn til þýska félagsins Hertha Berlín frá OH Leuven í Belgíu. Gerir hann samning við nýja félagið til ársins 2027.

Jón Dagur lék með Leuven frá árinu 2022 eftir að hann kom til félagsins frá AGF í Danmörku. Hann skoraði 19 mörk í 68 leikjum með Leuven. Hann er 25 ára kantmaður sem hefur skorað fimm mörk í 37 A-landsleikjum.

Hertha er á sínu öðru tímabili í B-deildinni eftir fall tímabilið 2022/2023. Þar á undan var liðið níu tímabil í röð í efstu deild.

Hertha hafnaði í níunda sæti á síðustu leiktíð og var nokkuð frá því að fara upp um deild. Nú er liðið í 11. sæti með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Eyjólfur Sverrisson er goðsögn hjá Hertha Berlín en hann lék með liðinu á árunum 1995 til 2003, eða þar til hann lagði skóna á hilluna. Hertha var einnig í B-deildinni þegar Eyjólfur kom til félagsins en með hann í aðalhlutverki fór liðið upp um deild og lék í riðlakeppni Meistaradeildarinnar tímabilið 1999/2000. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert