Látinn eftir baráttu við krabbamein

Christoph Daum er látinn, sjötugur að aldri.
Christoph Daum er látinn, sjötugur að aldri. AFP/Daniel Mihailescu

Knattspyrnuþjálfarinn Christoph Daum er látinn sjötugur að aldri. Daum var greindur með lungnakrabbamein í október árið 2022.

Þjóðverjinn gerði Stuttgart að Þýskalandsmeistara árið 1992 og Eyjólfur Sverrisson var þá leikmaður liðsins en Ásgeir Sigurvinsson hafði áður leikið með félaginu undir hans stjórn.

Þá hafnaði Daum fimm sinnum með lið sín í öðru sæti efstu deildar Þýskalands, tvisvar með Köln og þrisvar með Leverkusen.

Hann náði einnig góðum árangri í Tyrklandi þar sem hann gerði Fenerbahce einu sinni að tyrkneskum meistara og Besiktas einu sinni. Eyjólfur var aftur í meistaraliði hans með Besiktas árið 1995. Þá gerði hann Austria Vín að austurrískum meistara.

Síðasta þjálfarastarf Daum var A-landslið Rúmeníu, en honum var vikið frá störfum árið 2017.

Í 1.005 leikjum unnu lið Daums 530, gerðu 236 jafntefli og töpuðu 239 leikjum, sem gerir tæplega 53 prósenta sigurhlutfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert