Tilbúin í nýja áskorun

Hildur Antonsdóttir er klár í slaginn hjá nýju liði í …
Hildur Antonsdóttir er klár í slaginn hjá nýju liði í nýju landi. Eggert Jóhannesson

„Þetta er geggjuð borg, risaborg. Það er mjög gaman að vera komin hingað til Spánar,“ sagði Hildur Antonsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið. Hildur samdi í síðustu viku við Madrid CFF, sem leikur í efstu deild Spánar og er eins og heiti félagsins gefur til kynna í höfuðborginni þar í landi.

„Fyrstu kynni af félaginu eru mjög góð. Ég kom fyrir um það bil viku og er búin að vera í fullt af læknisskoðunum.

Þetta lítur allt mjög vel út hjá félaginu, það er allt mjög fagmannlegt. Ég byrja að æfa á morgun [í dag] þegar ég er búin að klára allar læknisskoðanir,“ sagði hún um nýja félagið sitt.

Hildur var samningslaus eftir tveggja ára dvöl hjá Fortuna Sittard í hollensku úrvalsdeildinni. Spurð hvort hún hafi verið með mörg tilboð á borðinu sagði Hildur:

„Ég var alveg með eitthvað af tilboðum en svo kom þetta upp. Mér fannst það mjög spennandi að búa á Spáni og spila í spænsku deildinni á móti mörgum af bestu leikmönnum heims, að fá að prófa spænska boltann og aðlagast honum. Ég held að það muni hjálpa mér mjög mikið með ferilinn.“

Viðtalið má sjá í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert