Landsliðsþjálfarinn vill banna gervigras

Ståle Solbakken vill spila fótbolta á grasi.
Ståle Solbakken vill spila fótbolta á grasi. Ljósmynd/Valgarður Gíslason

Landsliðsþjálfari Noregs í fótbolta, Ståle Solbakken, vill banna gervigrasvelli í efstu deild Noregs. Hann segir mikilvægar leikstöður vera á undanhaldi í Noregi.

Solbakken segir erfitt fyrir varnarmenn að þróa leik sinn á gervigrasvöllum þar sem færri einvígi eiga sér stað. Það sama gildir um þunga framherja og líkamlega sterka kantmenn. 

„Varnarmenn líta asnalega út á gervigrasi. Á gervigrasi er erfitt að tækla því að boltinn gengur hraðar og leikstíll liða er öðruvísi en á grasi. Það eru færri einvígi. Berir þú saman grasleik í úrvalsdeildinni og gervigrasleik er mikill munur á leikstílnum og fjölda návíga“ sagði Solbakken í viðtali við VG.

Í Skotlandi og Hollandi er bannað að spila á gervigrasvöllum í efstu deild og í Danmörku eru einungis tvö félög í efstu deild sem spila á gervigrasi. Þar er stefnt að banni á gervigrasvöllum í úrvalsdeildinni. Solbakken segir Norðmenn þurfa að fylgja því fordæmi.

„Við þurfum áætlun til að losa okkur við þessa velli. Ég skil að það sé ekki hlaupið að því að henda þeim en það eru grassvæði út um allt land“, sagði Solbakken að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert