Víkingur í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar

Aron Elís Þrándarson í fyrri leik liðanna á Víkingsvelli.
Aron Elís Þrándarson í fyrri leik liðanna á Víkingsvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víkingur mun leika í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu í vetur í fyrsta sinn í sögu félagsins. Liðið gerði markalaust jafntefli við UE Santa Coloma í Andorra en fyrri leik liðanna lauk með sigri Víkings, 5:0, í Víkinni fyrir viku síðan, svo ljóst var fyrir leik í kvöld að Víkingur væri í góðum málum fyrir seinni leikinn.

Fyrri hálfleikurinn var vægast sagt bragðdaufur og var greinilegt að Víkingar voru ekki að spila af þeim krafti sem þeir eru vanir. Það sést best í því að liðið átti ekki marktilraun í öllum hálfleiknum.

Fyrsta tæpa hálftímann gerðist akkúrat ekkert markvert en á 28. mínútu fengu heimamenn fyrsta færið. Bilal El Bakkali kom sér þá inn á teiginn vinstra megin en skot hans fór nokkuð vel framhjá fjærstönginni og olli Ingvari engum vandræðum.

Heimamenn voru meira með boltann það sem eftir lifði hálfleiksins og fengu nokkrar hornspyrnur. Eftir eina slíka átti Jorge Bolívar mjög fast skot utan teigs sem fór af varnarmanni Víkings og rétt framhjá markinu, líklega það næsta sem bæði lið komust því að skora í fyrri hálfleiknum.

Arnar Gunnlaugsson gerði tvöfalda breytingu í hálfleik, væntanlega aðallega til að dreifa álaginu hjá sínum mönnum. Áfram var þó rólegt yfir leiknum en Víkingar héldu örlítið betur í boltann en í fyrri hálfleik.

Fyrsta marktilraun Víkings kom á 58. mínútu en Nikolaj Hansen átti þá skalla rétt framhjá marki Santa Coloma eftir fasta aukaspyrnu Tariks Ibrahimagic. Ibrahimagic kom inná í hálfleik fyrir Karl Friðleif Gunnarsson og lék seinni hálfleikinn í hægri bakverði hjá Víkingi.

Þegar rétt rúmlega 10 mínútur voru til leiksloka fékk Viktor Örlygur Andrason svo fínasta færi. Varamaðurinn Danijel Dejan Djuric gerði þá mjög vel áður en hann setti boltann fyrir markið, beint á Viktor sem var aleinn en náði ekki að stýra skallanum á markið.

Fleiri urðu færin ekki og lauk leiknum með markalausu jafntefli. Fín úrslit hjá Víkingum sem þurftu ekki að eyða mikilli orku í þetta og fara mjög þægilega áfram.

Víkingur mun því, eins og áður sagði, taka þátt í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins í vetur. Breiðablik náði þessum áfanga fyrir ári síðan og varð þá fyrsta íslenska karlaliðið til að komast í riðlakeppni í Evrópukeppni. Nú munu Víkingar feta í sömu spor og verða í pottinum þegar dregið verður um andstæðinga á morgun.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

UE Santa Coloma 0:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Þremur mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert