Byrjar vel í nýju landi

Twente er meistari meistaranna í hollenska fótboltanum.
Twente er meistari meistaranna í hollenska fótboltanum. Ljósmynd/Twente

Landsliðskonan Amanda Andradóttir fer vel af stað með Twente en liðið rústaði Ajax, 6:1, í meistarabikar hollenska fótboltans í dag.

Amanda byrjaði á bekknum en lék allan seinni hálfleikinn og lagði upp mark á Jaimy Ravensbergen sem skoraði tvívegis í leiknum, eins og Kayleigh van Dooren.

Amanda gekk í raðir Twente í sumar eftir góða frammistöðu með Val. Liðið varð bæði hollenskur meistari og bikarmeistari á síðustu leiktíð og er í riðli með Val í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu sem leikinn er á heimavelli Twente í Enschede í næstu viku.

Talsverðar líkur eru á að Twente og Valur mætast þar í úrslitaleik riðilsins, þ.e. ef Twente vinnur Cardiff City frá Wales og Valur vinnur Ljuboten frá Norður-Makedóníu í undanúrslitunum næsta miðvikudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert