Knattspyrnumaður varð fyrir fólskulegri árás

Myndin sem Sommer birti af sér, sem átti eftir að …
Myndin sem Sommer birti af sér, sem átti eftir að hafa slæmar afleiðingar. Ljósmynd/Instagram

Knattspyrnumaðurinn þýski Niklas Sommer, leikmaður Nürnberg í heimalandinu, varð fyrir fólskulegri árás fyrir utan heimilið sitt í gær. Var Sommer verulega bólginn á nokkrum stöðum á andliti eftir árásina. 

Samkvæmt Bild er talið að stuðningsmaður Nürnberg standi á bak við árásina og ástæðan sé mynd sem Sommer birti af sér á Instagram í Bayern München treyju.

Nürnberg mætti Magdeburg í þýsku 2. deildinni á laugardaginn var og voru borðar í stúkunni sjáanlegir með miður fallegum skilaboðum til Sommers í kjölfar myndbirtingarinnar.

Einn stuðningsmaður gekk svo skrefinu lengra og gekk í skrokk á Sommer.

„Félagið sættir sig aldrei við að leikmenn séu beittir ofbeldi. Við fordæmum þessa árás, sem er algjörlega á móti öllu sem við sem félag stöndum fyrir,“ segir í yfirlýsingu sem Nürnberg gaf frá sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert