Chelsea sigurstranglegast og Víkingar í 33. sæti

Víkingar leika fyrsta leikinn í deildarkeppni Sambandsdeildarinna á Kýpur 3. …
Víkingar leika fyrsta leikinn í deildarkeppni Sambandsdeildarinna á Kýpur 3. október þegar þeir mæta Omonia. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Enska félagið Chelsea er langlíklegast til að vinna Sambandsdeild karla í fótbolta í vetur samkvæmt útreikningum knattspyrnuvefjarins Football Rankings.

Þar eru möguleikar allra 36 liðanna sem unnu sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar reiknaðir út og Chelsea ber höfuð og herðar yfir önnur lið með 40,6 prósent líkur á að standa uppi sem sigurvegari.

Real Betis frá Spáni er í öðru sæti með 16,5 prósent líkur og Fiorentina frá Ítalíu, lið Alberts Guðmundssonar, er í þriðja sæti með 15,7 prósent líkur.

Þaðan er svo langt bil niður í fjórða sætið en þar situr Heidenheim frá Þýskalandi með 5,1 prósent sigurmöguleika. Næst á eftir koma FC Köbenhavn frá Danmörku, lið Rúnars Alex Rúnarssonar, með 3,8 prósent og Gent frá Belgíu, lið Andra Lucasar Guðjohnsens, með 3,4 prósent.

Víkingar með þrjú lið fyrir neðan sig

Þá eru reiknaðar út líkurnar á að liðin komist áfram úr deildarkeppninni yfir í útsláttarkeppnina en þangað komast 24 lið af 36. Þar er Chelsea einnig í efsta sæti með 100 prósent líkur, á undan Real Betis og Fiorentina sem eru með 99,9 prósent líkur.

Víkingar eru í 33. sæti á þeim lista en líkurnar á því að þeim takist að komast í hóp 24 efstu liðanna eru taldar vera 13,6 prósent. Fyrir neðan þá eru The New Saints frá Wales (6,9%), Petrocub frá Moldóvu (5,5%) og Larne frá Norður-Írlandi (2,5%).

Cercle Brugge frá Belgíu er talið sterkast af þeim sex liðum sem Víkingar mæta og er  sett í 9. sætið með 95,4 prósent líkur. LASK Linz frá Austurríki er í 12. sæti með 92,7 prósent, Djurgården frá Svíþjóð er í 14. sæti með 87,6 prósent, Omonia Nikósía frá Kýpur er í 15. sæti með 87,7 prósent, Noah frá Armeníu er í 27. sæti með 43,6 prósent og Borac Banja Luka frá Bosníu er í 32. sæti, næst fyrir ofan Víking, með 16,8 prósent líkur á að komast áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert